154. löggjafarþing — 4. fundur,  15. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[09:47]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er hjartanlega sammála og það er rétt að ég er stórnotandi á flugi og bý hér 90% af mínum tíma, ferðast hingað og bý hérna lengst af, ekki vegna þess að ég hafi áhuga á því eða vilji það heldur vegna þess að ég þarf það. Það beinir kannski pínu sjónum okkar að vandamálinu sem við erum búin að byggja upp og tekur auðvitað rosalega langan tíma að vinda ofan af en við þurfum að fara að hugsa um. Árið 1900 bjuggu 7% íbúa landsins í Reykjavík, 11% á höfuðborgarsvæðinu. Í dag er hlutfallið 37, 8% í Reykjavík og 70% á höfuðborgasvæðinu sem þýðir að byggðaþróun hérna hefur eiginlega verið algerlega stjórnlaus. Þetta er ekki fyrirkomulag sem við hefðum viljað sjá og hefðum viljað stuðla að. Það er ekkert land í Vestur-Evrópu sem er svona. Það er rétt að það er næturstrætó í Noregi en hins vegar réðust Norðmenn í það fyrir nokkrum áratugum að byggja markvisst upp Bergen, Tromsø, Þrándheim, Stafangur sem mótvægi við Ósló þannig að svona miðaldra karlar eins og ég getum jafnvel fækkað ferðum okkar til höfuðborgarinnar og allur almenningur þurfi ekki alltaf að vera að fara þangað. Þannig að ég held að við verðum að fara að huga að því. Ég veit að það er áratugalangt verkefni en við þurfum einhvern veginn að stöðva þessa þróun vegna þess að þetta er ekki skynsamleg uppbygging á landi. Hún er það bara engan veginn og kallar á svo mikið af vandamálum. Ofan á allt umferðaröngþveitið hér, sem stafar bara af því að fólk þarf að komast á milli staða, bætast náttúrlega við þúsundir manna á hverjum einasta degi sem þurfa að sækja þjónustu hingað en hefðu getað gert það í heimabyggð. Þannig að við þurfum til skamms tíma að huga að þessum þáttum sem hv. þingmaður kom inn á og ég styð hann fyllilega í því en til áratuga þurfum við að snúa við þessari byggðaþróun.